Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fyrst og fremst að ná þessum stigum sem þarf til að halda sér uppi
Ray Anthony Jónsson er bjartsýnn fyrir tímabilið með Reyni. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 4. maí 2024 kl. 06:34

Fyrst og fremst að ná þessum stigum sem þarf til að halda sér uppi

– Reynismenn unnu þriðju deild á síðasta ári og ætla að halda sæti sínu í annarri deild í sumar

„Þetta er allt að fara í gang og við erum orðnir óþreyjufullir að byrja mótið,“ sagði Ray Anthony Jónsson, þjálfari Reynismanna, en Reynir er nýliði í annarri deild karla sem hefst um komandi helgi. „Nokkrir leikmenn eru að glíma við meiðsli en þegar hópurinn verður fullmannaður verðum við með hörku lið held ég.“

Með sókndjarft lið í höndunum

Sterkir leikmenn hafa gengið til liðs við Reyni í vetur og má þar helst nefna þá Sindra Þór Guðmundsson, Daníel Gylfason úr Keflavík og nú síðast kom Viktor Guðberg Hauksson á láni frá Grindavík. „Þetta eru allt leikmenn sem koma með reynslu úr efri deildum og munu styrkja Reynisliðið í sumar. Kristófer [Páll Viðarsson] spilaði með okkur á láni frá Grindavík í fyrra en hann er genginn yfir í Reyni. Svo fengum við Alexander Helgason frá Þrótti og Hubert Rafal Kotus frá KFK og frá Hvöt fengum við sterkan varnarmann, Alberto Sánchez Montilla, og Moussa Ismael Sidibe Brou, markahæsta leikmann þriðju deildar á síðasta ári. Þetta verður þrusulið þegar við höfum náð að slípa það saman.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristófer Páll Viðarsson er alkominn til Reynis eftir að hafa verið á láni frá Grindavík í fyrra. Hann varð næstmarkahæstur í þriðju deild á síðasta tímabili, einu marki á eftir Moussa Ismael Sidibe Brou. Þeir eru nú samherjar í beittri framlínu Reynis.


Þrátt fyrir talsverðan mun á deildum er Ray á þeirri skoðun að Reynisliðið sé vel samkeppnishæft samanborið við önnur lið í annarri deild í sumar. „Eins og í fyrra þá erum við með sókndjarft lið en það vantar aðeins upp á stöðugleikann hjá okkur og við þurfum að bæta varnaleik liðsins. Ég hef verið ánægður með hvernig liðið hefur spilað á undirbúningstímabilinu en við höfum átt of marga slæma kafla þar sem við missum leikina niður í tap. Mér finnst við hafa átt of marga tapleiki í vor en ef ég ber það hins vegar saman við undirbúningstímabilið í fyrra þá erum við að standa okkur betur í ár.“

Hvert er markmið Reynismanna í sumar?

„Það er fyrst og fremst að ná þessum stigum sem þarf til að halda sér uppi, svo metum við stöðuna eftir það. Ég hef trú á að Reynir eigi eftir að standa sig vel í sumar,“ sagði Ray að lokum.